Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Mataræði

Mataræði sykursjúkra

ÁvextirHollt mataræði skiptir miklu máli fyrir sykursjúka, en hvað þýðir það nákvæmlega? Hvað ætti maður að forðast og hvað ætti maður að borða?

Fyrst ber að nefna að þó þú sért með sykursýki þá þýðir það ekki að þú megir aldrei borða sykur aftur. Allt er gott í hófi og auðvitað þarf að neita sykurs í mjög miklu hófi þegar maður er sykursjúkur. Það er kannski ekki góð hugmynd að hakka í sig kökur milli mála en allt í lagi einstaka sinnum að fá sér sætan eftirrétt eftir aðalmáltíð. Takmarkið er alltaf er að halda blóðsykrinum innan marka. Stundum þýðir það að maður neyðist til að fá sér eitthvað sætt, ef hann er of lágur.

Ávaxtasafi, gos og aðrir sætir drykkir eru þó eitthvað sem ætti að forðast almennt eða a.m.k. að halda vel í hófi. Vatn er auðvitað besti drykkurinn, og lækkar blóðsykurinn lítillega.

graenmetidSykur er sykur og það skiptir ekki miklu máli hvort hann er agave, ávaxtasykur, döðlur, sýróp eða hunang – allt hækkar þetta blóðsykurinn álíka mikið og nokkuð hratt. Þó hækka mismunandi tegundir hann mishratt eftir hver sykurstuðull þeirra er og þar eru skárst kókospálmasykur og palmyra jaggery. Svo eru til náttúruleg sætuefni eins og stevia sem hækka blóðsykurinn ekkert.

Það sem sykursjúkir þurfa að fylgjast með er ekki bara sykur, heldur öll kolvetni. Líkaminn breytir kolvetnum í glúkósa þannig að blóðsykurinn hækkar meira ef maturinn inniheldur mikið af kolvetnum. Kolvetnaríkur matur er t.d. brauðmeti, pizza, pasta og svo hvers konar sætindi.

SykurLíkt og með sykur hafa kolvetni mishröð áhrif á blóðsykurinn (sykurstuðul) og almennt má segja að flóknari kolvetni séu betri en þau einfaldari. T.d. er heilhveiti betra en hvítt hveiti. Þau eiga það líka til að vera ríkari í trefjum. Trefjar hafa engin áhrif á blóðsykurinn og því geturðu dregið þær frá ef þú ert að reikna út kolvetnaskammtinn.

Það er því æskilegt að halda neyslu á kolvetnum í hófi þegar maður er sykursjúkur. Eins og með sykur er samt fínt að borða eitthvað kolvetni til að halda blóðsykrinum uppi. Þó hafa sumir farið á LKL eða lágkolvetnamataræði og fundist það hjálpa við blóðsykursstjórn. Eina við það mataræði að það er lágt í kolvetnum en hátt í fitu, en læknar eru almennt ekki hrifnir af of mikilli fitu í mataræði sykursjúkra. Aðrir hafa farið á Paleo og láta vel af því. Ég myndi mæla með að ráðfærast við lækni eða næringarfræðing áður en þú ferð út í LKL.

Mælt er með að borða mikið af grænmeti, hnetum og fjölbreytt úrval af ávöxtum en þó þarf að gæta að magninu og sykurstuðlinum. T.d. eru bananar, þurrkaðir ávextir og ananas mjög sætir og hækka blóðsykurinn hraðar en t.d. ber. Best er að borða ferska ávexti frekar en að drekka ávaxtasafa því þá fáum við líka trefjarnar með.

Á flestum matvörum eru næringarupplýsingar þar sem má sjá fjölda kolvetna (á Íslandi miðað við 100 gr), eða carbohydrates á ensku. Mundu að ef maturinn inniheldur trefjar þá má draga þær frá. T.d. inniheldur þunnt pítubrauð 23 gr af kolvetnum og 2 gr af trefjum = 21 gr af kolvetnum sem hækka blóðsykurinn.

Það eru til margar tegundir af mataræðum sem gætu virkað vel fyrir sykursjúka, en í rauninni er ekkert „eitt rétt mataræði“. Lykillinn er fjölbreytt og hollt mataræði, og að borða reglulega skiptir líka miklu máli. Hver og einn verður að finna hvað hentar honum/henni og hjálpar þeim að halda blóðsykrinum í skefjun.