Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Greinar

Hvernig er að vera með sykursýki?

Nú eru komnir 5 mánuðir síðan ég greindist með sykursýki 1 og mér datt í hug að skrifa smá pistil um hvernig er að vera með sykursýki.

Áður en ég greindist vissi ég ekki mikið um sykursýki. Maður heyrði bara að feitt fólk yfir fertugu fengi sykursýki 2 og börn og unglingar fengu sykursýki 1. Maður ímyndaði sér að sykursjúkir mættu nánast ekki borða neinn sykur en ég er nú búin að læra að það er ekki satt.

Ég hafði alltaf verið frekar heppin með heilsuna. Varð nánast aldrei veik, hafði ekki fengið flensu eða pestir frá því að ég var krakki og hef aldrei handleggsbrotnað, fótbrotnað eða neitt slíkt. Ég hafði aldrei verið lögð inn á spítala áður en ég greindist. Ég hef alltaf verið viðkvæm fyrir flestu sem tengist meiðslum, blóði og verið hrædd við nálar. Ég hafði ekki farið í blóðprufu í mörg ár áður en ég greindist, hafði ekki beint haft ástæðu til þess þar sem ég var alltaf frekar hraust.

Svo í október 2014 gerðist eitthvað. Ég var reyndar búin að vera óvenju þyrst í örugglega vel yfir ár og þurfti að pissa mjög oft. Ég vaknaði oft á nóttunni til að pissa sem ég hafði aldrei lent í áður. Ég tók sérstaklega eftir að þegar ég var búin að borða mikinn sykur að þá vaknaði ég jafnvel oft á nóttunni til að pissa. Mig grunaði samt ekki beint að ég gæti verið með sykursýki því ég vissi ekki alveg einkennin og ég hélt að það gæti ekki verið heldur því jú bara feitt, eldra fólk eða krakkar áttu að fá sykursýki.

Þarna í lok október var mér farið að verða soldið illt í maganum eftir að borða og einn daginn varð mér svo óglatt að ég fór að æla. Ég var búin að vera heima ælandi í 4 daga og hélt að þetta væri bara gubbupest eða eitthvað. Þetta var samt orðið það slæmt að mér fannst ástæða til að fara á bráðadeildina. Ég var farin að anda mjög hratt líka.

Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég fór á spítala. Ég komst mjög fljótt að og á örugglega undir 2 tímum var komin greining, sykursýki 1. Blóðsykurinn var mjög hár eða 33 og ég var í ástandi sem heitir ketónablóðsýring. Ég var náttúrulega frekar hissa og vissi ekki alveg hvað þetta myndi þýða. Ég endaði á að vera á spítala í 5 daga og fékk strax insúlín til að ná blóðsykrinum niður. Ég fékk kennslu um hvernig ætti að sprauta insúlíni, mæla blóðsykurinn o.s.frv. Ég fékk líka ítarlega bók um líf með sykursýki sem var skrifuð af sérfræðingum á spítalanum sem ég var á.

Ég þurfti að læra helling og fór að lesa mér mikið til, bæði í bókinni og á netinu. Ég vissi ekki alveg hvað ég mætti borða og hvað ekki og var mjög gætin að fá mér sætindi. Ég þurfti að læra að lesa næringarupplýsingar á matvörum og aðalmálið er að skoða kolvetnamagnið, ekki endilega sykurmagnið. Kolvetni breytast í sykur í blóðinu og hækka blóðsykurinn.

Þar sem brisið hjá þeim sem eru með sykursýki 1 framleiðir ekkert insúlín þá þarf að sprauta insúlíni fyrir hverja aðalmáltíð í samræmi við hvað er mikið af kolvetnum í matnum. Það er líka mjög mikilvægt að borða reglulega og fyrir þá sem eru með sykursýki 1 þarf að mæla blóðsykurinn allavega fyrir hverja máltíð og stundum 2 tímum eftir líka.

Týpískur dagur hjá mér er ca svona:
Ég mæli blóðsykurinn áður en ég fæ mér morgunmat og gef mér insúlín. Fyrir hádegismat mæli ég aftur blóðsykurinn og gef mér insúlín og sama fyrir kvöldmat. Stundum mæli ég mig líka eftir hádegismat. Ég get fengið mér lítið snarl milli máltíða (allt að 20 gr af kolvetnum) án þess að gefa mér insúlín, en það er ekki sniðugt að vera nartandi allan daginn. Ef ég ætla að fá mér eitthvað sætt eins og nammi eða eftirrétt þá þarf ég að gera það eftir aðalmáltíð því þá er ég búin að skammta mér insúlín í samræmi við hvað ég borða mikið af kolvetnum. Á kvöldin gef ég mér langtímainsúlín fyrir svefninn sem virkar smám saman í 24 tíma.

Í byrjun var ég á föstum skömmtum á insúlíni þannig að ég þurfti að reyna að borða ca jafnmikið magn af kolvetnum í  hverri máltíð. Núna er ég búin að læra að reikna út hvað ég þarf mikið insúlín miðað við kolvetnamagnið sem ég borða þannig að ég er aðeins frjálsari og get fengið mér kolvetnameiri (eða minni) mat. Það er ekkert bannað að fá sér t.d. pizzu, kökur, nammi og ís., maður þarf bara að reikna út insúlínið sem getur stundum verið soldið flókið… sérstaklega ef maður fer út að borða og veit ekki alveg hvað er í matnum.

Í byrjun var blóðsykurinn oft soldið hár þar sem ég var enn að læra inná þetta en smám saman fór að ganga betur og nú er langtímablóðsykurinn hjá mér orðinn góður. Stundum hef ég verið með of lágan blóðsykur, þá hef ég gefið mér of mikið insúlín. Ég finn samt ekki mikil einkenni þegar þetta hefur gerst, aðallega að sjónin verður óskýrari og stundum verð ég svöng. Hann hefur heldur ekki farið það lágt ennþá að það hafi verið einhver hætta á ferð. Þegar þetta gerist þarf maður samt að taka á því strax með því að fá sér sykur, t.d. glúkósatöflur, gos, ávaxtasafa eða eins og ég hef stundum gert – jelly beans. Maður þarf samt að mæla magnið þannig að blóðsykurinn verði ekki of hár heldur. Þetta snýst allt um balans og getur verið soldið flókið stundum að halda blóðsykrinum innan réttra marka.

Það breytist semsagt margt þegar maður er  með sykursýki. Maður þarf að fara í allskonar reglulegar skoðanir eins og sérstaka augnskoðun og það er meiri hætta á fótavandamálum og tannskemmdum t.d. þannig að maður þarf sífellt að vera á varðbergi. Það er samt meiri hætta ef maður er búinn að vera lengi með sykursýki eða hefur ekki haft góða stjórn á blóðsykrinum. Þá geta komið upp alls kyns langtímavandamál þannig að það er mjög mikilvægt að halda blóðsykrinum innan marka. Ég hef heldur aldrei farið eins oft í apótek og á síðustu mánuðum því maður þarf jú sífellt að fylla á byrgðirnar af insúlíni, nálum, strimlum og nálum til að mæla blóðsykurinn o.s.frv. Tryggingarnar hérna borga samt sem betur fer stóran hluta.

Það eru líka aðrir hlutir sem þarf að huga að sem maður hafði ekki spáð í áður. T.d. er ekki ráðlegt að fara í langferðalög einn, maður þarf að fara í læknisskoðun reglulega uppá bílpróf því það getur verið hættulegt að fá blóðsykursfall þegar maður er að keyra og maður þarf að mæla blóðsykurinn áður en maður fer að keyra. Það eru einhver störf sem er erfitt að vinna með sykursýki, t.d. flugmaður, geimfari og norðurpólsfari. Sem betur fer var ekkert af þessu á dagskrá hjá mér.

Núna er ég allavega orðin minna hrædd við nálar enda hef ég verið stungin með nálum ansi oft á síðustu mánuðum. Nálarnar sem eru notaðar á insúlínpennana eru alveg pínkulitlar og nettar þannig að maður finnur varla fyrir þeim. Ég er líka alveg hætt að vera hrædd við blóðprufur núna, en ég var skíthrædd áður.

Þetta er heilmikil vinna og tekur stundum orku og ég er mjög fegin að hafa ekki fengið sykursýki fyrr, sem barn eða unglingur. Get ekki ímyndað mér hvernig það er. Ég hef nú alltaf verið frekar skipulögð og samviskusöm sem hjálpar við að hafa góða stjórn á sjúkdómnum. Ef maður er algjör trassi og borðar óreglulega og óhollt þá getur stefnt í óefni.

Við greiningu og fyrstu mánuðina er þetta allt svolítið yfirþyrmandi en smám saman lærist þetta og maður venst því að lifa með sjúkdómnum. Ég er líka hætt að vera hrædd við að fá mér sætindi eins og ég var í byrjun, en auðvitað allt í góðu hófi samt og það er ekki sama hvenær maður borðar sætindin. Ég gúffa ekki í mig risa kökusneið og gosi um miðjan dag t.d. Svolítið skrýtið að hugsa til þess samt að í raun getur sykur bjargað lífi manns, ef maður fær blóðsykurfall þ.e.a.s.