Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Greinar

5 algengar mýtur um mat og sykursýki leiðréttar

Sykursjúkir mega borða það sama og þeir sem eru ekki með sykursýki, en sumir halda að sykursjúkir þurfi að fylgja mjög ströngu mataræði. Við skulum skoða nokkrar algengar mýtur um mat og sykursýki.

 

1. Sykursjúkir verða að borða annan mat en aðrir í fjölskyldunni

Sykursjúkir geta borðað sama mat og hinir í fjölskyldunni. Næringarleiðbeiningar fyrir sykursjúka nú til dags eru mjög sveigjanlegar og bjóða upp á marga möguleika til að sykursjúkir geti notið uppáhaldsmatarins. Hvort sem þeir eru með sykursýki eða ekki, ættu allir að borða heilnæman mat eins og ávexti, grænmeti, heilkorn, prótein og góða fitu. Þó þú sért með sykursýki þá er ekki þörf á að elda sérmat fyrir þig.

 

2. Sykursjúkir ættu alltaf að forðast freistingar

Næstum því allir eru sólgnir í ákveðinn mat á einhverjum tímapunkti og sykursjúkir eru engin undantekning. Það er ekki óalgengt að sykursjúkir hætti að borða öll sætindi eða snarminnki matarskammta til að léttast. Þá bregst líkaminn oft við þessum róttæku breytingum með því að láta þig dauðlanga í ákveðinn mat. Í 90% tilfella inniheldur það sem verður fyrir valinu í þessum aðstæðum mikið af fitu og/eða sykri.

Besta leiðin til að komast yfir þetta er að borða almennt hollan mat sem leyfir þér að lauma einstaka sætindum inn í matarplanið. Ef þú færð löngun í eitthvað ákveðið, leyfðu þér að fá þér smá bita og njóta bragðsins en það kemur í veg fyrir að þú borðir yfir þig síðar.

 

3. Sykursjúkir ætti ekki að borða of mikið af mat með sterkju, jafnvel þó hann innihaldi trefjar, því sterkja hækkar blóðsykurinn og er fitandi

Matur með sterkju. eins og brauð, pasta, hrísgrjón og morgunkorn innihalda kolvetni sem er orkugjafi líkamans. Ávextir, mjólk, jógúrt og eftirréttir innihalda líka kolvetni. Allir þurfa einhver kolvetni í mataræðinu, líka sykursjúkir. Þú þyngist þegar þú innbyrgðir meiri kaloríur en líkaminn brennir þannig að ef þú borðar of mikið af hvaða mat sem er þá munt þú þyngjast. Lykillinn er að vita hversu mikið af góðum kolvetnum þú átt að borða til að halda blóðsykrinum stöðugum innan réttra marka og sjálfum þér í heilbrigðri þyngd. Veldu mat sem er heilkorna, inniheldur mikið af trefjum og er næringarríkur.

 

4. Sykursjúkir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að borða fitu því að hún hefur ekki mikil áhrif á blóðsykur

Fitumikill matur eins og smjörlíki, olíur og salatdressingar hefur lítil áhrif á skammtímablóðsykurinn. Aftur á móti hægir fitan á meltingunni og gerir insúlíni erfiðara fyrir að virka. Þetta veldur oft sveiflu á blóðsykrinum löngu eftir máltíðina. Sumar fitur geta hækkað kólesteról sem eykur líkur á hjartaáfalli eða heilablóðfalli. Þessar fitur eru kallaðar mettaðar fitur og transfitur og ætti að neyta í algjöru lágmarki. Matvörur sem innihalda mettaðar fitur eru: smjör, rautt kjöt, ostur og nýmjólk. Transfita er í sumu smjörlíki, snarlmat og skyndibitamat. Einnig inniheldur fita mikið af kaloríum og ætti að vera neytt í hófi ef þú ert að reyna að léttast.

 

5. Sykursjúkir ættu alltaf að fylgja mataræði sem inniheldur lítið af salti

Það að vera með sykursýki þýðir ekki að þú þurfir að snarhætta að borða salt. Hins vegar ættu sykursjúkir að minnka neyslu á salti því þeir eru í meiri hættu en aðrir á að fá háan blóðþrýsting, sem er aðalorsök hjartasjúkdóma. Algengt viðmið er að halda sig innan við 2.300 mg á dag. Dæmi um mat sem inniheldur mikið af salti eru:

  • Dósasúpur
  • Grænmeti úr dós
  • Unnið álegg (t.d. skinka, rúllupylsa, beikon…)
  • Salatdressingar
  • Sumt morgunkorn

Þó þú sért ekki með háan blóðþrýsting þá er ekki slæm hugmynd að fylgjast með saltinnitökunni. Sumir eru viðkvæmir fyrir salti og fá hærri blóðþrýsting eftir að borða saltan mat.

 

Grein þýdd frá Joslin.org