Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Greinar

Allt um sykurnema (sensor)

Á síðustu árum hafa komið á markað nokkrar tegundir af sykurnemum eða CGM, sem stendur fyrir Continous Glucose Monitor. Nýlega kom líka á markað svokallaður FGM sem stendur fyrir Flash Glucose Monitor. Ég mun fara yfir muninn á þessum mismunandi tækjum.

CGMs

Sykurnemar auðvelda líf sykursjúkra til muna með því að minnka þörf fyrir að stinga fingurinn oft á dag til að fá stöðuna á blóðsykrinum. Með sykurnema er blóðsykurinn sjálkrafa mældur á 5 mínútna fresti og annað hvort sendur í insúlíndælu, app í snjallsíma eða í snjallúr þar sem hægt er að sjá blóðsykurinn á grafi og í hvaða átt hann er að hreyfast.

Notandinn þarf þó ennþá að mæla með fingurstungu tvisvar á dag og setja niðurstöðurnar inn í CGMinn til að “calibrate-a” hann, svo hann haldist nákvæmur.

Ef sykurinn fer of lágt eða hátt sendir tækið aðvörun svo að notandinn geti brugðist við sykurfalli eða háum sykri með viðeigandi meðferð. Þetta gefur mun betri langtímastjórn og minni sveiflur á blóðsykri þar sem hægt er að grípa fyrr inní. Þeir tveir CGM sem ég mun fjalla um eru Dexcom og Enlite.

FGMs

Eins og CGM mæla FGM sykurinn á nokkurra mínútna fresti, en munurinn er sá að notandinn þarf að skanna sykurnemann með fjarstýringu eða appi í snjallsíma til að sjá niðurstöðurnar. Þetta þýðir að tækið getur ekki varað mann við að stefni í sykurfall eða háan blóðsykur fyrr en maður skannar nemann. Sá FGM sem er vinsæll núna heitir Freestyle Libre.

CGM: Enlite

Sykurneminn sem er fáanlegur á Íslandi þegar þetta er skrifað heitir Enlite og er frá Medtronic. Hann samstendur af sykurnema (sensor), sem endist í 6 daga, og sendi (transmitter) sem er notaður í lengri tíma er hægt að endurhlaða. Sykurneminn mælir blóðsykurinn á 5 mínútna fresti og sendirinn  sendir niðurstöðurnar í annað hvort Medtronic insúlíndælu eða í “Guardian” snjallsíma appið. Þá er hægt að sjá í rauntíma hvernig blóðsykurinn breytist.

Með appinu er hægt að áframsenda gögninn til annara svo þeir geti fylgst með blóðsykrinum og fengið tilkynningar þegar hann verður of hár eða of lágur. Þetta er frábær kostur fyrir foreldra sykursjúkra barna t.d.

Helstu kvartanir sem ég hef heyrt af fyrir Enlite eru að sendirinn missi oft tengingu og að það sé svolítið maus að setja sensorinn á. Það er samt sem áður góður kostur og mikill munur að þurfa ekki að vera sífellt að stinga í fingurinn.

FGM: Freestyle Libre

Freestyle Libre, sem er FGM eða Flash Glucose Monitor, er vinsæll í Evrópu og er nýlega kominn á markað í Kanada og Bandaríkjunum. Hann er mun ódýrari en t.d. Dexcom og margir sem eru ekki með einkatryggingu (sem er því miður æskilegt í Kanada og Bandaríkjunum) eiga nú kost á að nýta sér þessa tækni sem þeir höfðu ekki efni á áður.

Eftir nýlegum heimildum er Freestyle Libre væntanlegur á Íslandi innan skamms. Eins og áður sagði þá er sensorinn skannaður með fjarstýringunni eða appi í snjallsíma. Það þarf ekki að “calibrate-a” hann eins og Dexcom og Enlite, og hver sensor endist í 14 daga. Með þessari tækni má því koma í veg fyrir allar fingurstungur, þar sem það þarf ekki að “calibrate-a” hann. Þetta þykur mörgum vera stór kostur.

Ímyndið ykkur að vera á ferð og flugi eða í ræktinni og geta skannað í staðinn fyrir að stinga í fingurinn. Fyrir börn er þetta líka mjög sniðugt og þurfa foreldrarnir t.d. ekki að vekja barnið á nóttunni til að mæla sykurinn.

Eins og fyrir CGM þá er hægt að sjá graf yfir hvernig blóðsykurinn hefur verið yfir daginn og hægt að skoða t.d. hvernig líkaminn brást við ákveðnum mat. Helsti ókosturinn er að hann gefur ekki aðvaranir fyrirfram þegar stefnir í sykurfall eða háan blóðsykur.

CGM: Dexcom G5

Dexcom nýtur mikilla vinsælda í Ameríku og er líka algengur á Evrópumarkaði. Hann er dýr miðað við aðra mæla en ef fólk er með einkatryggingu þá sækist það oft í Dexcom.

G5 stendur fyrir “5th generation”, en það er rúmt ár síðan G5 kom út. Það sem var nýtt í þeirri uppfærslu var tenging við snjallsíma og snjallúr. Fyrir þann tíma þurfti að nota sérstakan móttakara (receiver) frá Dexcom (lengst til vinstri á myndinni) til að sjá niðurstöðurnar.

Með G5 er fjarstýringin í raun óþörf og nóg að nota snjallsíma. Sumir kjósa að bæta snjallúri við. Notandinn getur séð rauntíma blóðsykursgildin á snjallúrinu, sem er mjög þægilegt. Úrið sækir gögnin frá símanum og getur sýnt aðvaranir um háan og lágan blóðsykur.

Eins og hjá Enlite þá eru sykurneminn og sendirinn aðskildir hlutir. Dexcom mælir með að nota hvern nema í 7 daga, en margir notendur “endurcalibrate-a” sensorinn og geta því notað hann mun lengur, allt að nokkrar vikur í einu.
Dexcom mælir með að nota hvern sendi í 3 mánuði, en það eru leiðir til að nota þá í allt að 4-5 mánuði. Hver sendir er dýr þannig að fólk vill nota þá sem lengst.
Dexcom eru líka með app þar sem er hægt að áframsenda gögninn til annara.

Einn galli við Dexcom er að sykurnemarnir eru ekki nákvæmir fyrsta sólarhringinn sem þeir eru notaðir.

Dexcom er því miður ekki enn fáanlegur á Íslandi þegar þetta er skrifað og veit ég ekki til þess að hann sé á leiðinni. Hann fæst nú þegar á Norðurlöndunum og í Evrópu þannig að það er aldrei að vita.

CGMs og FGMs: Kostir og gallar

Notkun sykurnema hefur nokkra ótvíræða kosti:

  • Betri langtímastjórn og lægri langtímasykur.
  • Minni sveiflur á blóðsykri – færri sykurföll og hár blóðsykur.
  • Töluvert færri fingurstungur nauðsynlegar.
  • Það er frelsi fyrir marga, sérstaklega fyrir þá sem lifa aktívum lífsstíl, að geta fylgst náið með blóðsykrinum og geta einbeitt sér að öðru.

Það eru jú einhverjir gallar líka:

  • Kostnaður er einn þáttur, ef þú býrð á stað sem er ekki með gott almenningsheilbrigðiskerfi.
  • Það gæti stressað einhverja að vera alltaf með blóðsykurinn fyrir framan sig. Sumum væri hætt við að vera stöðugt að leiðrétta. Með tímanum lærist þetta þó og maður fer að sjá mynstur og gera færri leiðréttingarmistök.
  • Ef þú ert með bæði insúlíndælu og sykurnema þá ertu með tvö tæki á líkamanum.
  • Maður þarf alltaf að vera með fjarstýringuna eða símann innan nokkurra metra til að missa ekki tengingu (fyrir CGM).
  • Þó það sé ekki hundrað í hættunni að tengingin detti út í stuttan tíma í einu, er þó gagnslaust að vera með CGM ef maður er aldrei tengdur.

 

Mín reynsla

Ég er búin að vera með Dexcom í 5 mánuði og sé ekki eftir að hafa prófað. Fyrstu vikurnar meðan ég var enn að læra inná þetta átti ég það til að ofleiðrétta þegar ég sá að það stefndi í sykurfall eða of háan blóðsykur. Ég lærði að það borgar sig oft að gefa insúlín aðeins áður ég byrja að borða, t.d. 10 mínútum fyrir morgunmat, en það fer eftir núverandi blóðsykri og hvaða mat maður er að fara að borða. Þetta er eitthvað sem lærist með tímanum.

Það er líka ákveðinn matur sem hækkar blóðsykurinn lengi eftir að maður er búinn að borða, eins og pizza, matur með mikilli fitu eða annað kolvetnaríkt eins og núðlur og pasta. Þá er gott að hafa dælu á móti til að fínstilla insúlíngjöfina. Þessi tvö tæki virka betur saman, þó að það sé vissulega hægt að ná góðum árangri með að hafa bara annað hvort.

Mér finnst mjög þægilegt að hafa smartúr til að geta alltaf séð blóðsykurinn þegar ég þarf. Sérstaklega þægilegt þegar maður er upptekinn eða á ferðalögum. Hvað þá í ræktinni. Þegar sykurinn fer yfir eða undir mörkin sem ég stillti í símanum (undir 4,4 eða yfir 11) þá titrar úrið.

Ég “calibrate-a” alltaf á morgnana og á kvöldin áður en ég fer að sofa og oftast er Dexcom nokkur nákvæmur, nema fyrsta daginn með nýjan sensor. Ég nota app fyrir Android sem heitir xDrip+ en það er forritað af samfélaginu sem nennti ekki að bíða eftir að Dexcom kæmu með app fyrir Android síma. Dexcom var lengi með app á iPhone áður en það kom út á Android, sem var aðeins nokkrum mánuðum áður en þetta er skrifað. Ég nota ennþá xDrip því að það biður ekki um að skipta um sensor vikulega og batteríið í sendinum endist mun lengur. Snjallúrið mitt (Pebble Time Round) er heldur ekki stutt í Dexcom appinu.

 

Hvað er framundan?

Á næstu árum munum við sjá sjálfvirka tengingu á milli sykurnema og insúlíndælna, þetta er kallað gervibris (artificial pancreas). Prófanir hafa staðið yfir lengi og veit ég að Dexcom og Omnipod eru að vinna í að tengja sín tæki saman á þennan hátt. Þetta virkar þannig að insúlíndælan mun þá sjálfkrafa gefa réttan skammt af insúlíni ef blóðsykurinn fer yfir ákveðið gildi og heldur þetta blóðsykrinum mun stöðugri og líkir eftir vinnslu í alvöru brisi.

JDRF eru með meiri upplýsingar um verkefnið hér.