Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Uppskriftir

Hnetusmjörs- og súkkulaðismákökur

Þessar eru ansi góðar og eru hveitilausar, eggjalausar og vegan. Það er mjög fljótlegt og einfalt að gera þær. Þetta er uppskrift fyrir 12 stk en spurning að tvöfalda uppskriftina því þær eru fljótar að klárast. Alveg óþarfi að nota hrærivél í þetta, dugir að nota bara sleif og hræra með handafli.

1 msk möluð hörfræ
3 msk vatn
1/2 bolli ósætt kókosmjöl
1/2 bolli tröllahafrar
1/2 bolli kókospálmasykur
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt
1/4 bolli dökkir súkkulaðidropar
1/2 bolli hreint hnetusmjör (úr heilsubúð)
1 tsk vanilludropar
2 msk hlynsýróp

—————————–

Hitið ofninn í 180°C (350°F). Klæðið bökunarplötu með smjörpappír.

Setjið hörfræin og vatn saman í meðalstóra skál og hrærið vel saman. Látið standa í nokkrar mínútur.

Blandið kókosmjöli, höfrum, kókospálmasykri, lyftidufti, salti og súkkulaðidropum saman í stórri skál.

Bætið hnetusmjöri, vanilludropum og hlynsýrópi út í skálina með hörfræjunum og hrærið vel saman. Þetta á að vera mjög þykkt. Blandið saman við þurrefnin úr hinni skálinni þar til allt er vel blandað.

Bleytið hendurnar, hristið af auka vatn og hnoðið 12 litlar kúlur, á stærð við golfkúlur. Raðið á bökunarplötuna með góðu bili á milli. Ýtið örlítið ofaná hverja köku til að fletja hana aðeins út.

Bakið í 12-14 mínútur. Kökurnar verða mjúkar þegar þær koma úr ofninum en harðna þegar þær kólna. Geymist í ísskáp í 3-4 daga eða í frysti í allt að mánuð.

 

Næringarupplýsingar fyrir 1 smáköku:
174 kaloríur, 10 gr fita, 19 gr kolvetni, 14 gr sykur, 2 gr trefjar, 124 mg sódíum, 4 gr prótein