Ég byrjaði að nota insúlíndælu fyrir tæpum 2 mánuðum síðan og langar að segja frá reynslu minni hingað til og kosti og galla.
Insúlíndælan sem ég er með heitir Omnipod og er einu slöngulausa dælan svo ég viti til. Því miður er hún ekki í boði ennþá á Íslandi en verður það vonandi einhvern tíma.
Í byrjun hafði ég ekki áhuga á að fá dælu þar sem mig langaði ekki að hafa tæki alltaf fast við mig. Mig langaði sérstaklega ekki að hafa slöngudælu þar sem það er ekkert voða hentugt fyrir hvaða klæðnað sem er, eins og kjóla og þröng föt.
Ég for svo á sykursýkisviðburð hér í Montreal í nóvember og þar voru sölumenn frá nokkrum dælufyrirtækjum að kynna dælurnar. Hérna í Kanada virkar þetta aðeins öðruvísi en á Íslandi með dælur. Maður velur sjálfur hvernig dælu maður vill og ef maður er með tryggingu þá borgar hún yfirleitt 80% af dælunni og 80-100% af viðhaldskostnaði, en það fer eftir því hvernig tryggingu þú ert með. En í staðinn átt þú dæluna sjálf(ur).
Þarna sá ég fyrst Omnipod dæluna sem er slöngulaus, og fékk þá smá áhuga á að kynna mér þetta betur. Ég fékk bækling og skoðaði hann og las mér til um hvernig þetta virkar. Ég fékk svo svokallaðan “dummy pod” til að prófa og sjá hvernig er að vera hann á mér. Það er engin nál í honum heldur er hann bara til að prófa hvernig er að vera með pod á sér.
Þetta er það sem er kallað “pod”
Svo er fjarstýring sem heldur utanum allar stillingar og maður notar hana þegar maður borðar til að gefa matarinsúlín, en annars þarf maður ekki endilega að hafa hana nálægt sér. Maður notar hvern pod í 3 daga og hann gefur manni stöðuga litla skammta af insúlíni og svo matarinsúlín aukalega þegar maður borðar og setur inn kolvetnafjöldann. Fjarstýringin er líka blóðsykursmælir þannig að maður þarf ekki að ganga með mæli á sér aukalega. Þetta er eina dælan sem ég þekki sem er með þennan fídus.
Það er mælt með að setja podinn á þessa staði: maga, neðra bak, rass eða aftan á upphandleggi, og færa hann alltaf til þegar maður skiptir á 3 daga fresti.
Ég ætla að telja upp helstu kosti og galla sem ég sé við að hafa dælu:
Engar sprautur
Stærsti kosturinn er að þurfa ekki að sprauta sig oft á dag. Maður er alltaf með insúlín “plöggað inn” sem gefur manni mun meiri sveigjanleika. Ég get alltaf bætt við smá insúlíni ef ég ákveð t.d. eftir að ég er búin að gefa mér insúlín fyrir máltíðinni að mig langi í eftirrétt. Í allskonar félagslegum aðstæðum kemur sér líka vel að vera með dælu, t.d. í partýum eða boðum þar sem er verið að borða yfir langan tíma, þá er alltaf hægt að bæta við meira insúlíni, gefa sér í mörgum litlum skömmtum o.s.frv.
Þetta er líka hentugt ef maður er úti og vill kannski ekki fara afsíðis og sprauta sig eða bara ef maður er farþegi í bíl og er að borða, þá þarf maður ekki að vera að vesenast með sprautu.
Betri stjórn
Dælan bíður upp á ýmsar stillingar sem er ekki hægt að leika þægilega eftir með sprautum. Einn er t.d. “extended bolus” fyrir máltíðir sem eru borðaðar yfir lengri tíma, eða kolvetnaríkan og feitan mat eins og pizzu. Þegar maður borðar pizzu þá hækkar blóðsykurinn oft yfir lengri tíma en venjulega og verður oft of hár eftir ca 3 tíma.
Með því að nota “extended bolus” er hægt að stilla t.d. að þú viljir gefa þér x mikið af insúlíninu strax og x mikið eftir x langan tíma. T.d. 50% núna og 50% eftir 1 klst. Með þessu móti verður blóðsykurinn jafnari.
Ef blóðsykurinn er of hár þá mælir dælan með ákveðnu magni af insúlíni til að lækka hann niður í eðlileg gildi. Þegar þú færð dæluna þá eru settar inn allskonar færibreytur eins og hversu mikið 1 eining af insúlíni lækkar þig, hversu mikið basal insúlín þú þarft á klukkutíma og hversu mikið þú þarft fyrir máltíðir fyrir ákveðna tíma dags. Ég er t.d. ekki með sama hlutfall af insúlíni sem ég þarf fyrir morgunmat, hádegismat og kvöldmat.
Það er líka hægt að setja inn sérstillingar eins og að hækka eða lækka basal insúlínið í ákveðinn tíma. T.d. áður en ég fer í ræktina þá lækka ég basal insúlínið um 50% í 2 klst. Ef blóðsykurinn er í lægra lagi fyrir svefninn þá er hægt að lækka basal insúlínið fyrir nóttina t.d. um 10%, en þegar ég var á sprautum þá hefði ég þurft að borða í staðinn tl að hækka mig nógu mikið fyrir nóttina.
Ef maður er veikur þá þarf maður yfirleitt meira insúlín og þá er hægt að stilla basal insúlínið þannig að það sé hærra í x tíma.
Minni útreikningar
Fyrir þá sem eru ekki mikil stærðfræðiséní þá mun dælan auðvelda lífið. Það eina sem þú þarft að gera er að segja henni hvað þú ert að borða mikið af kolvetnum og hún sér um alla útreikninga. Hún tekur inní “IOB: Insulin on board” sem er áætlun um hversu mikið af insúlíni er enn virkt frá síðustu máltíð og reiknar út hvað þú þarft mikið miðað við tíma dags og hvað blóðsykurinn er hár þá stundina.
GALLAR:
Þú ert alltaf með tæki fast við þig. Mér finnst þetta kannski minni galli með Omnipod þar sem það fer minna fyrir honum en slöngudælu og ég gleymi oftast að ég sé með hann á mér. Með slöngudælu þá er líka vesen að koma henni fyrir eftir klæðnaði, t.d. við kjóla. Ef þú ert alltaf í gallabuxum og bol þá er þetta kannski minna mál.
Kostnaður
Þetta er kannski ekki mál á Íslandi þar sem að mér skilst að ríkið borgi kostnaðinn, en ef þú býrð t.d. í Norður-Ameríku þá borgar ríkið yfirleitt ekki og það fer alveg eftir tryggingunum sem þú ert með hversu mikið þú þarft að borga.
Hún getur bilað
Ef dælan bilar þá er blóðsykurinn mjög fljótur að hækka þar sem þú ert ekki með neitt basal insúlín heldur. Þú getur fengið ketóna á nokkrum klukkutímum og þarft þá að gera ráðstafanir og jafnvel fara á sprautur á meðan dælan er komin aftur í lag. Þess vegna þarftu alltaf að hafa insúlínpenna á þér líka til vara ef hún skyldi bila því það er mjög alvarlegt að hafa ekkert insúlín í einhvern tíma.
Ekki alltaf hægt að hafa hana á sér
Omnipod er vatnsheldur en þeir mæla ekki með að fara með hann í mikinn hita eins og gufubað og hest ekki heitan pott í langan tíma því insúlínið getur ofhitnað. Ef þú ert með slöngudælu þá getur þú aftengt hana í stuttan tíma í einu í staðinn.
Ekki má heldur fara með dælur í gegnum ákveðna öryggisskanna á flugvöllum og ekki heldur í ákveðnar tegundir af myndatökum eins og sneiðmyndaskanna. Mér skilst að með slöngudælur þurfi að aftengja þær í flugtaki og lendingu, en þar sem það er engin slanga í Omnipod þá þarf ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir með það.
Mér finnst kostirnir mun meiri en gallarnir og ég sé ekki eftir að hafa fengið mér dælu.
Ég skemmti mer stundum við að skreyta podinn minn, en það er til Facebook grúppa sem heitir Pimp my pod þar sem fólk sýnir hvernig það skreytir podana sína.
Ég fylgist með nokkrum “dælustelpum” á samfélagsmiðlum sem eru duglegar að setja inn sykursýkistengt efni og segja frá lífi sínu með sykursýki:
Sierra Sandison byrjaði með #showmeyourpump taggið á samfélagsmiðlum
Einnig er hægt að finna hópa á Facebook þar sem fólk með ákveðnar tegundir af dælum ræðir og svarar spurningum tengdum dælunni sinni.