Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Uppskriftir

Maríukaka – hollari útgáfa

Þetta er alveg hrikalega góð kaka, uppskrift frá Ebbu Guðnýju. Ég get vottað að þessi kaka hreyfir blóðsykurinn ekki mikið en haldið magninu þó í hófi 🙂 Hefðbundin Maríukaka inniheldur ansi mikið af sykri en Ebba breytti uppskriftinni til betri vegar og gaf mér góðfúslegt leyfi til að birta hana. Uppskriftin er ekki flókin þó þetta séu nokkur skref. Ég mæli svo með að bera hana fram með rjóma.

Botninn:
80 gr 70% súkkulaði
80 gr smjör
3 egg, hamingjusöm
1 1/2 dl kókospálmasykur
35 dropar karamellu- eða vanillustevía (2 pípettur), ég notaði karamellu
1 tsk vanilluduft
1 dl möndlumjöl eða spelt

Aðferð:
Hitið ofninn í 175°C. Bræðið varlega smjör og súkkulaði og kælið ögn. Hrærið vel saman egg, sætu og vanilluna.

Blandið öllu varlega saman sem og afganginum af uppskriftinni og setjið í smelluform með bökunarpappír innan í (mjög mikilvægt!) og bakið í um 18-20 mínútur.

Karamellan:
2-3 msk  kókospálmasykur
2 msk hlynsýróp, lífrænt (eða dökkt agave sýróp)
25 dropar karamellustevía
80 gr smjör
4 msk rjómi
80-100 gr pekanhnetur, saxaðar

Aðferð:
Setjið allt nema pekanhneturnar í pott og látið sjóða í um 4 mínútur. Fylgist vel með svo karamellan sjóði ekki upp úr!

Eftir 15-20 mínútur takið þið kökuna úr ofninum og setjið pekanhnetur yfir hana alla og hellið svo karamellunni yfir. Setjið hana svo aftur inn í ofn í um 10 mínútur.

Lokalagið:
80-100 gr dökkt karamellusúkkulaði, saxað (lífrænt), 70% súkkulaði eða 56% súkkulaði (eða annað sem þið viljið)
Athugið að það er líka til súkkulaði sem er sætað með Stevíu og hefur því minni áhrif á blóðsykurinn.

Eftir 10 mínútur slökkvið þið á ofninum og takið kökuna út, dreifið brytjuðu dökku karamellusúkkulaði yfir hana. Það má líka setja hana aftur inn í ofninn (sem slökkt er á) í um 3 mínútur.

Þá er bara að ná kökunni af pappírnum og yfir á kökudisk! 🙂