Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira
Mataræði

Þarf ég núna að fara eftir sérstöku mataræði fyrir sykursjúka?!

Þetta er ein algengasta spurningin sem nýgreindir sykursjúkir spyrja. Þegar við upplifum heilsubresti þá er eðlilegt að hugsa “get ég ennþá borðað þetta?” Svarið er hugsanlega einfaldara en þú heldur!

Sannleikurinn er sá að æskilegt mataræði fyrir sykursjúka er það sama og fyrir aðra. EN ef venjulega mataræðið þitt er mjög frábrugðið almennum meðmælum þá munt þú án efa njóta góðs af því að taka til í mataræðinu.

Hver eru þessi meðmæli?

Þú hefur eflaust heyrt einhver af þessum nú þegar. Í hnotskurn eru þau:

 • Borðaðu meira af grænmeti án sterkju, fersku grænu grænmeti og ávöxtum (stútfull af vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum)
 • Borðaðu heilkorn (þau eru góð uppspretta trefja og B-vítamína)
 • Borðaðu meira af plöntupróteini (t.d. baunir og linsubaunir, tófú og tempeh, hnetusmjör)
 • Veldu magurt kjöt (kjúkling, magurt nautahakk) og fisk
 • Veldu mat sem inniheldur lítið af mettaðri fitu
 • Veldu mat með hollum einómettuðum og fjölómettuðum fitusýrum (t.d. ólífuolíu, hnetur, lárperu)
 • Veldu vörur án transfitu (mjólkurvörur eru undantekning)
 • Forðastu mikið unnin mat
 • Haltu viðbættum sykri og salti í hófi
 • SKAMMTASTÆRÐIR (sérstaklega mikilvægt til að auðvelda kolvetnatalningu)

Miðjarðarhafsmataræðið

Ekkert eitt mataræði hentar öllum og sykursjúkir þurfa ekki að fylgja ákveðnu mataræði. Það eru margir möguleikar sem þú getur valið sem henta þér en fara samt eftir þessum meðmælum. Ef þú vilt nákvæmari leiðbeiningar þá er Miðjarðarhafsmataræðið góður kostur.

Það er heilnæmt mataræði sem leggur áherslu á ávexti, grænmeti, heilkorn, baunir, hnetur og fræ. Ólífuolía er aðal uppspretta einómettaðrar fitu. Fiskur, alifuglakjöt og mjólkurvörur er borðað í minna magni en rautt kjöt er takmarkað. Rauðvíns má einnig neyta í litlu magni með máltíðum.

Rannsóknir hafa sýnt að Miðjarðarhafsmataræðið getur hjálpað við stjórnun á sykursýki og minnkað líkur á hjartasjúkdómum með því að:

 • Lækka langtímablóðsykur – betri blóðsykursstjórnun
 • Lækka fastandi blóðsykur
 • Lækka heildarkólesteról og þríglýseríð
 • Hækka HDL, “góða kólesterólið”
 • Lækka blóðþrýsting
 • Stuðla að þyngdartapi

Lykilskilaboð: þegar kemur að mat þá er ekkert strangt mataræði fyrir sykursjúka. Þú hefur enn sveigjanleika til að útbúa þína eigin rétti og matarplan. Almenn meðmæli fyrir hollt mataræði eru enn þau sömu og áður. Það er enn mikilvægara en áður að fylgja þessum meðmælum til að borða vel!

 

Grein þýdd með leyfi höfundar frá Yumitrition. Höfundur greinar: Sonia Du, næringarfræðinemi við McGill háskóla.