Sykursýki

Fræðsluefni, uppskriftir og fleira

Um mig

Ég heiti Edda Ósk og greindist með sykursýki 1 í nóvember 2014, þá 33 ára gömul. Þegar ég greindist þá var blóðsykurinn kominn uppúr öllu valdi eða í 33, en eðlilegt er að vera í 4-7. Ég vissi ekki mikið um sykursýki fyrir þetta en þegar maður veit einkennin þá hafði ég verið með týpísk einkenni í nokkurn tíma: mikinn þorsta, tíð þvaglát, endurteknar sýkingar, þyngdartap o.s.frv. Ég vissi heldur ekki að fullorðnir greindust með sykursýki 1, maður heyrði bara um börn og unglinga.

Ég hef alltaf verið mikill nammigrís þannig að mér fannst svolítið kaldhæðið að ég skyldi fá sykursýki 1, sem er einmitt tegundin sem er ekki tengd við slæman lífsstíl. Það er í raun ekki vitað fyrir víst af hverju fólk fær sykursýki 1, en það er talið vera um samspil erfða og umhverfisþátta að ræða.

Frá því að ég greindist hef ég lesið mér mikið til og kynnt mér sykursýki en mér fannst vanta aðgengilegt efni á íslensku og þess vegna setti ég upp þessa síðu. Hún er að hluta til ætluð fyrir vini og aðstandendur sem vilja fræðast nánar um sykursýki en frábært ef hún gagnast sem flestum. Ég stefni á að setja inn greinar, fræðsluefni og uppskriftir reglulega.